Sonja Ýr Þorbergsdóttir

Kæru félagar,

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti formanns BSRB á þingi bandalagsins sem haldið verður í Reykjavík 17.–19. október næstkomandi.

Ég á tvær dætur sem eru 8 og 14 ára og bý með þeim í Vogahverfi í Reykjavík. Ég er fædd í Reykjavík og ólst upp í höfuðborginni, í Vestmannaeyjum og í Svíþjóð. Áður en ég hóf nám í lögfræði starfaði ég á sambýli fyrir fatlaða en ég hef einnig starfað í mötuneyti á heilbrigðisstofnun, á sveitahóteli og við ýmis afgreiðslustörf. Síðastliðin tíu ár hef ég starfað sem lögfræðingur BSRB og unnið ötullega að því að framfylgja stefnumálum bandalagsins.

BSRB hefur lengi barist fyrir hagsmunum launafólks og náð miklum árangri í baráttunni fyrir auknum lífsgæðum en hlutverk bandalagsins hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi ríkt góðæri á landinu hefur það ekki skilað sér með sama hætti til allra og síst til þeirra tekjulægstu. Afleiðingin er aukin misskipting í samfélaginu og við því verður að bregðast. Mikilvægasta verkefni bandalagsins er að auka velferð okkar allra, stuðla að auknu jafnrétti og tryggja það að allir geti lifað á launum sínum.

Í aðdraganda kjarasamninga heyrist nú kunnuglegt stef atvinnurekenda að launahækkanir verði að vera hóflegar til að tryggja megi efnahagslegan stöðugleika. Það virðist gleymast að þeir hæst launuðu hafa fengið gríðarlegar launahækkanir bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þetta er iðulega réttlætt með því að þar sé um að ræða leiðréttingu á launum frá því fyrir hrun. Sú röksemdafærsla gengur ekki upp. Í kjölfar hrunsins fækkaði starfsfólki verulega á flestum vinnustöðum sem hafði í för með sér aukið álag fyrir þá sem eftir stóðu með neikvæðum afleiðingum á heilsu þeirra og líðan. Launahækkanir voru afar litlar og var það ekki fyrr en 2015 sem þær hefðu átt að stuðla að bættri stöðu lág- og millitekjuhópa ef ekki hefðu komið til auknar álögur á þennan hóp. Þessi hópur hefur ekki fengið leiðréttingu vegna hrunsins. Það er augljóst að það verður engin sátt um hóflegar launahækkanir nema annað komi til sem bætir stöðu tekjulægstu hópanna verulega.

Ójöfnuðurinn að aukast

Á þessu ástandi bera stjórnvöld mikla ábyrgð. Kaupmáttur hefur aukist meira hjá þeim tekjuhærri en tekjulægri á undanförnum árum og dregið hefur verið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Þá hafa húsnæðis- og vaxtabætur ásamt barnabótum verið skertar. Við það verður ekki búið lengur. Stjórnvöld verða að taka markviss skref í átt að því að allir hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegum kjörum með því að tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis, með uppbyggingu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og auknum húsnæðisstuðningi og vaxtabótum. Þá verða barnabætur að þjóna tilgangi sínum sem er að létta undir með barnafólki og jafna stöðu þess. Það er okkar hlutverk hjá BSRB að berjast fyrir þessum breytingum og því að skattbreytingar og stuðningur stjórnvalda gagnist þeim sem lægstu launin hafa, ásamt barnafjölskyldum.

Eitt af stærstu baráttumálum okkar í BSRB er stytting vinnuvikunnar og ég mun að sjálfsögðu leggja mikla áherslu á að ná því mikilvæga stefnumáli í gegn. Allt of víða einkennist starfsumhverfi í almannaþjónustu af lágmarksmönnun og miklu álagi sem hefur neikvæð áhrif á heilsu fólks. Stytting vinnuvikunnar auðveldar fólki að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf og stuðlar meðal annars að betri líðan, minni streitu, aukinni starfsánægju og fækkun veikindadaga. Við í BSRB þurfum að halda áfram að berjast kröftuglega fyrir styttingu vinnuvikunnar og betra starfsumhverfi.

Bandalagið þarf að beita sér hart gegn aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Þar framfylgjum við vilja þorra landsmanna og eigum að halda áfram að gera. Það eiga að vera grundvallarréttindi allra landsmanna að hafa aðgang að fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag.

Við þurfum að tryggja aðgengi félagsmanna að menntun og með nýjum áskorunum verður þetta hlutverk bandalagsins enn mikilvægara. Hraðar tæknibreytingar munu hafa mikil áhrif á vinnumarkað framtíðarinnar. Störf munu breytast og kalla á nýja færni. Við þessum áskorunum verður bandalagið að bregðast. Við þurfum að tryggja að félagsmenn hafi ávallt tækifæri til að bæta við sig þekkingu og færni og hafi tækifæri til að þróast í starfi.

Látum raddir allra heyrast

Við sem erum félagar í aðildarfélögum BSRB erum fjölbreyttur hópur og það er eitt mikilvægasta verkefni bandalagsins að sjá til þess að raddir okkar allra fái að heyrast. Samfélagið okkar verður fjölbreyttara með hverju árinu sem líður og í þeirri þróun felast fjölmörg spennandi tækifæri. Samstaðan hefur skilað okkur mörgum sigrunum og nýjar raddir gera okkur sterkari í baráttunni.

Ef ég hlýt kosningu sem formaður BSRB mun ég berjast af krafti að hagsmunum allra félagsmanna. Við þurfum að beita okkur fyrir aðgerðum í húsnæðismálum, efla stuðning við barnafjölskyldur, minnka skattbyrði og tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Sköpum saman velsæld og jafnrétti fyrir okkur öll.