Vésteinn Valgarðsson

Góðir félagar,

þegar ég kom á þetta þing í gær, var ég satt að segja ekki með formann í maganum. Mér var efst í huga léttir, eftir að hafa daginn áður skilað af mér öllum trúnaðarstörfum fyrir lítinn stjórnmálaflokk. Það var svo í gær, að nokkrir þingfulltrúar skoruðu á mig að gefa kost á mér til formanns. Mér fannst til að byrja með að mér væri skylt að hugsa málið og komst svo að þeirri niðurstöðu að láta slag standa.

Því er best að ég kynni mig. Ég er 37 ára Reykvíkingur, ættaður víðs vegar að af landinu, stoltur faðir tveggja barna, vel upp alinn sonur tveggja lækna og konan mín er framhaldsskólakennari. Ég er lærður sagnfræðingur en hef unnið sem stuðningsfulltrúi á Kleppi öll fullorðinsár mín, frá því ég byrjaði að vinna með skóla árið 2001. Ég fékk ungur áhuga á þjóðfélagsmálum og er alinn upp við að sjálfsagt sé að taka þátt í þeim og fylgja sannfæringu sinni eftir. Ég hef því verið virkur í margvíslegu félagsstarfi og grasrótarstarfi í meira en 15 ár.

Ég hafði unnið á Kleppi í rúm fimm ár þegar ég varð trúnaðarmaður þar fyrir SFR árið 2006. Ég hef verið aðaltrúnaðarmaður SFR á Landspítalanum síðan 2015. Það væri of langt mál að telja upp öll mín störf á vegum SFR og BSRB, en það má kannski segja að þau séu meiri en góðu hófi gegnir, enda var ég lengi eini trúnaðarmaðurinn á geðsviði Landspítalans. Eitt verð ég þó að nefna sem stendur upp úr, en það eru kjarasamningarnir 2011. Þá var samið um verulega réttarbót, bættan miskabótarétt fyrir fólkið mitt á geðdeildunum, og fleiri, ef það verður fyrir árás í starfi, sem því miður gerist reglulega. Þetta mál var upphaflega köllun mín sem trúnaðarmaður og það var sætur og langþráður sigur þegar SFR og Sjúkraliðafélagið höfðu það í gegn.

Ég held því að ég geti leyft mér að kalla mig frambjóðanda grasrótarinnar.

Ég er sósíalisti og sem slíkur veit ég, og þið vonandi öll, að saga framfara fyrir vinnandi fólk er saga stéttabaráttu, hvort sem það eru kaup og kjör, mannréttindi eða lýðræði. Saga baráttunnar er saga sigranna. Við búum í ranglátu þjóðfélagskerfi og á meðan svo er, þurfum við samtakamáttinn í stöðugri baráttu fyrir félagslegu réttlæti, ef við viljum njóta góðra lífskjara fyrir okkur og börnin okkar. Bæði varnarbaráttu og sóknarbaráttu. Allir okkar sigrar eru sigrar í baráttu. Við höfum aldrei fengið neitt gefins frá atvinnurekendum og það er ekki að fara að breytast. Þessi barátta á nánast hug minn allan og í þessari trú hef ég starfað við margt, þar á meðal framboð til Alþingis.

Meðan ég var trúnaðarmaður fyrir Klepp og geðsvið Landspítalans barðist ég fyrir fólkinu mínu þar. Sem aðaltrúnaðarmaður berst ég fyrir fólkinu mínu á öllum spítalanum. Verði ég kjörinn formaður mun ég berjast fyrir opinbera starfsmenn og fyrir því að vinnustaðirnir þeirra séu og verði vel og félagslega reknir. Verði ég ekki kjörinn mun ég auðvitað halda ótrauður áfram á vettvangi SFR.

Það er rétt að taka fram - eins og þið vitið sem þekkið mig - að ég hef oft verið, hér og víðar, talsmaður sjónarmiða sem hafa lent í minnihluta. Í stuttu máli trúi ég því ekki, sem sósíalisti, að það sé farsælt að nota kapítalískar aðferðir í verkefnum sem eru í eðli sínu sósíalísk. Hins vegar veit ég og skil, að formaður BSRB getur oftast ekki spilað sóló, og verði ég kjörinn mun ég að sjálfsögðu fylgja þeirri stefnu sem þing BSRB samþykkir, enda er það það hlutverk sem ég er að bjóða mig fram til: að starfa fyrir ykkur öll, að því sem þið setjið mér fyrir. Á þessu er þó sá fyrirvari, að mér fylgja auðvitað vissar áherslur: Hvað sem þið samþykkið að eigi að krefjast langs fæðingarorlofs, þá mun ég berjast fyrir 24 mánaða fæðingarorlofi. Það er vegna hagsmuna barna, en það sem er gott fyrir börn er gott fyrir okkur sem þjóðfélag. Ég vil líka taka að fram, að þegar ég tala um fólkið mitt á Kleppi, þá hef ég sjúklingana líka í huga. Það er erfitt að gleyma hlutskipti fólks með geðraskanir, þegar maður hefur annast þá í sautján, átján ár. Enda er hlutskipti þeirra hlutskipti okkar allra, ef við veikjumst, fyrir utan að við erum mörg nánir aðstandendur fólks með geðraskanir. Ef ég verð kosinn mun ég því leyfa mér, sem formaður, að láta mig varða sérstaklega um geðheilbrigðismál í þjóðfélaginu.

Eins og ég mun, fyrir utan þessar áherslur, fylgja þeim verkefnalista sem þetta þingið setur fyrir, þá mun ég líka fylgja þeirri strategíu sem samtökin og aðildarfélög þeirra setja sér í kjarabaráttunni. Ég er sjálfur heitur baráttumaður og ég mun ekki boða það að vinnandi fólk eigi að kunna sér hóf í kröfum sínum. En ég mun hlíta lýðræðislegum niðurstöðum samtakanna, þar á meðal niðurstöðunni um hver skuli verða næsti formaður þeirra.